Hlutabréfaverð málmleitarfélagsins Amaroq Minerals hefur hækkað um 3,5% í tæplega 150 milljóna króna viðskiptum á íslenska First North-markaðnum í morgun. Gengi félagsins stendur nú í 100 krónum eftir 22% hækkun á einum mánuði.

Amaroq Minerals var skráð á íslenska First North-vaxtarmarkaðinn í byrjun nóvember 2022 en félagið hefur fengið samþykkta beiðni um að flytja sig yfir á aðalmarkað Kauphallarinnar á fimmtudaginn. Hlutabréf Amaroq voru fyrir einnig skráð í TXS Venture kauphöllinni í Kanada og á AIM markaðnum í London.

Markaðsvirði Amaroq, , sem heldur á víðtækum rannsóknar- og vinnsluheimildum á Grænlandi, er nú tæplega 26 milljarðar króna. Innherji greindi frá því í gær að greinandi breska fjárfestingarbankans Panmure Gordon hefði nýlega verðmetið félagið á um 36 milljarða króna.