Hlutabréfaverð Amaroq Minerals hækkaði um tæp 3% í viðskiptum dagsins en félagið birti árshlutauppgjör annars ársfjórðungs fyrir opnun markaða í morgun.
Líkt og Viðskiptablaðið fjallaði um í gær hafði gengi félagsins fyrir viðskipti dagsins verið á stöðugri niðurleið og lækkað um 21% síðastliðna tvo mánuði.
Í uppgjöri málmleitarfélagsins sagði Eldur Ólafsson, stofnandi og forstjóri, að félagið muni að öllu óbreyttu ná að hefja gullframleiðslu fyrir árslok.
Samkomulag félagsins við Landsbankann í júlí hefði einnig tryggt félaginu aukið aðgengi að lánsfé á hagstæðum kjörum sem styrkir lausafjárstöðu félagsins.
Hlutabréfaverð fasteignafélagsins Heima hækkaði um 2% í 634 milljóna króna veltu. Gengi félagsins hefur nú hækkað um 3% í mánuðinum og rúm 5% á árinu.
Mesta veltan var með hlutabréf Marels er gengi félagsins fór niður um rúmt 1% í um 643 milljón króna viðskiptum. Dagslokagengi félagsins var 483 krónur.
Heildarvelta í Kauphöllinni nam 4 milljörðum króna og fór úrvalsvísitalan upp um 0,42%.