Hlutabréfaverð Arion banka hefur hækkað um 6% í morgun og stendur gengi bankans í 179 krónum þegar þetta er skrifað. Sé tekið mið af arðgreiðslum hefur gengi bankans aldrei verið hærra en gengið hefur hækkað um 15% það sem af er ári.
Dagslokagengi Arion banka var í 169 krónur í gær en þar sem tæknilegir örðugleikar komu upp í viðskiptakerfi Nasdaq á Norðurlöndunum í gær féllu öll viðskipti eftir klukkan 15:00 á íslenskum tíma niður.
Hlutabréfaverð Arion banka hefur nú hækkað um rúm 15% á árinu og 43% síðastliðið ár.
Arion banki birtir uppgjör annars ársfjórðungs eftir lokun markaða í dag en bankinn er sem stendur í samrunaviðræðum við Kviku banka.
Kvika banki tilkynnti þann 6. júlí síðastliðinn að hefja samrunaviðræður við Arion banka. Viljayfirlýsingin felur í sér að hluthafar Kviku eignist 26% hlut í sameinuðu félagi.
Endurspeglar það gengið 19,17 krónur á hlut fyrir Kviku banka og 174,5 krónur á hlut fyrir Arion banka.
Arion og Kvika hafa sagt að fyrstu skref ferlisins séu áreiðanleikakannanir og samrunaviðræður en sú vinna sé þegar hafin.