Hlutabréfaverð Arion banka hefur hækkað um rúm 2% í 1,2 milljarða króna viðskiptum í morgun.
Gengi bankans stendur í 171,5 krónum þegar þetta er skrifað en dagslokagengi föstudagsins var 167,5 krónur.
Arion banki birti drög að árshlutauppgjöri fjórða ársfjórðungs sem gerir ráð fyrir um 8,3 milljarða króna hagnaði sem leiðir til 13,2% arðsemi eiginfjár á árinu 2024.
Samkvæmt kauphallartilkynningu bankans er því afkoma fjórðungsins um 28% yfir meðaltalsspá greiningaraðila.
Munurinn liggur helst í betri afkomu af verðbréfum samstæðunnar og jákvæðari virðisbreytingu lánabókar en greiningaraðilar gera almennt ráð fyrir.
Tekjur af kjarnastarfsemi, samanlagðar hreinar vaxtatekjur, hreinar þóknanatekjur og hreinar tekjur af tryggingastarfsemi, eru að mestu í takt við spár greiningaraðila.
Gengi Arion banka hefur nú hækkað um 4,5% síðastliðinn mánuð en von er á ársuppgjöri frá bankanum 12. febrúar.