Hluta­bréfa­verð Arion banka hefur hækkað um rúm 2% í 1,2 milljarða króna við­skiptum í morgun.

Gengi bankans stendur í 171,5 krónum þegar þetta er skrifað en dagsloka­gengi föstu­dagsins var 167,5 krónur.

Arion banki birti drög að árs­hluta­upp­gjöri fjórða árs­fjórðungs sem gerir ráð fyrir um 8,3 milljarða króna hagnaði sem leiðir til 13,2% arð­semi eigin­fjár á árinu 2024.

Sam­kvæmt kaup­hallar­til­kynningu bankans er því af­koma fjórðungsins um 28% yfir meðaltals­spá greiningaraðila.

Munurinn liggur helst í betri af­komu af verðbréfum sam­stæðunnar og jákvæðari virðis­breytingu lána­bókar en greiningaraðilar gera al­mennt ráð fyrir.

Tekjur af kjarna­starf­semi, saman­lagðar hreinar vaxta­tekjur, hreinar þóknana­tekjur og hreinar tekjur af trygginga­starf­semi, eru að mestu í takt við spár greiningaraðila.

Gengi Arion banka hefur nú hækkað um 4,5% síðastliðinn mánuð en von er á árs­upp­gjöri frá bankanum 12. febrúar.