Hlutabréfaverð Arion banka hækkaði um 1,2% í 2,4 milljarða króna veltu í dag. Gengi hlutabréfa Arion banka stendur nú í 164 krónum á hlut og hefur ekki verið hærra síðan í nóvember 2022. Hlutabréfaverð bankans hefur hækkað um 14,5% í ár.
Arion tilkynnti eftir lokun Kauphallarinnar í gær að fjármálaeftirlit Seðlabankans hefði veitt bankanum heimild fyrir allt að 3 milljarða króna endurkaupum eigin hluta, eða sem samsvarar um 19,4 milljónum hluta, og lækkun hlutafjár.
Stjórn Arion banka samþykkti endurkaup eigin hluta og fól stjórnendum Arion Banka að taka ákvörðun um framkvæmd og tímasetningu endurkaupa. Bankinn mun tilkynna um framkvæmdina þegar ákvörðun liggur fyrir.
Úrvalsvísitalan lækkaði um 0,6% í 6,5 milljarða króna viðskiptum á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Ellefu félög aðalmarkaðarins hækkuðu í viðskiptum dagsins og þrettán lækkuðu.
Hlutabréf Icelandair hækkuðu mest, eða um 1,4% í yfir 200 milljóna veltu. Gengi Icelandair stendur nú í 1,43 krónum á hlut. Auk Icelandair og Arion hækkuðu hlutabréf Ölgerðarinnar og Kviku um meira en eitt prósent.
Fimm félög lækkuðu um meira en eitt prósent í dag. Hlutabréfaverð Marels féll um 3,9% í 114 milljóna króna veltu og stendur gengi félagsins nú í 588 krónum á hlut.
Tilkynnt var í dag að hluthafar Marel sem eiga yfir 90% af útgefnum og útistandandi hlutum í félaginu hefðu samþykkt yfirtökutilboð JBT. Þar með hafa öll skilyrði tilboðsins nú verið uppfyllt.