Hlutabréfverð breska bílaframleiðandans Aston Martins hækkaði um 15% í gær. Gengi hlutabréfa Aston Martin hefur nú hækkað um 78% frá áramótum. Hækkunin er m.a. rakin til góðs gengis í fyrstu keppni nýs tímabils í Formúlu 1.

Í umfjöllun Bloomberg segir að hlutabréf Aston Martin hafi tekið að hækka nokkuð í síðustu viku eftir að félagið birti uppgjör. Lúxusbílaframleiðandinn hagnaðist um 6,6 milljónir punda eftir skatta, eða sem nemur 1,1 milljarði króna, og spáði því að geta afhent fleiri bíla á seinni helmingi ársins vegna batnandi stöðu í aðfangakeðju sinni.

Lawrence Stroll, stjórnarformaður og stærsti hluthafi Aston Martin, sagði á uppgjörsfundi að mikla eftirspurn eftir Aston Martin bílum mætti að hluta rekja til markaðssetningar í gegnum Formúlu 1, sem veki áhuga yngri viðskiptavina.

Aston Martin liðið, sem endaði í sjöunda sæti í keppni bílasmiða í fyrra, byrjaði nýtt tímabil af krafti. Spánverjinn Fernando Alonso, sem gekk til liðs við Aston Martin fyrir þetta tímabil, hreppti þriðja sætið í Barein keppninni um helgina og liðsfélagi hans Lance Stroll endaði í því sjötta.

Nokkrir greiningaraðilar rekja hækkunina einnig til skortsöluþvingunar (e. short squeeze). Hlutabréf í láni, sem er mælikvarði á skortstöðu, voru um 11% af floti á markaðnum á fimmtudaginn síðasta, samkvæmt gögnum S&P Global Market Intelligence.

Alonso deildi verðlaunapallinum með Max Verstappen og Sergio Pérez, ökumönnum Red Bull Racing sem enduðu í tveimur efstu sætunum í Barein keppninni.
© epa (epa)