Stjórn matvælafyrirtækisins Bakkavarar upplýsti á föstudaginn að hún hefði hafnað öðru yfirtökutilboði frá Greencore. Stjórn Bakkavarar sagði að tilboðið vanmeti verulega virði félagsins og framtíðarhorfur þess.
Hlutabréfaverð Bakkavarar hækkaði um 17% á föstudaginn síðasta og stóð í 176,5 pensum á hlut við lokun markaða. Dagslokagengi félagsins hefur ekki verið hærra frá árinu 2018. Gengi Bakkavarar hefur lækkað lítillega frá opnun markaða í morgun og stendur í 176,0 pensum á hlut þegar fréttin er skrifuð.
Í tilkynningu sem Greencore sendi frá sér á föstudaginn kemur fram að tilboðið hafi verðmetið Bakkavör á 1,14 milljarða punda eða hátt í 200 milljarða króna. Það samsvarar 189 pens á hlut, sem er um 25% hærra en dagslokagengi Bakkavarar á fimmtudaginn síðasta.
Tilboðið fól í sér að hluthafar Bakkavarar fengju annars vegar greitt í reiðufé og hlut í sameinuðu félagi. Hluthafar Grenncore hefðu eignast 59,8% hlut og hluthafar Bakkavarar 40,2% í sameinuðu félagi.
Um er að ræða annað yfirtökutilboð Greencore í Bakkavör í ár. Greencore lagði fram fyrra tilboðið þann 25. febrúar síðastliðinn en stjórn Bakkavarar hafnaði því tveimur dögum síðar. Seinna tilboðið var lagt fram 7. mars og hafnað 10. mars síðastliðinn.
Stjórn Bakkavarar tilkynnti á föstudaginn að hún hefði komist að þeirri niðurstöðu að tilboðið vanmeti verulega virði félagsins. Stjórnin sagðist hafa tilboðið vandlega með ráðgjöfum sínum.
Tekið var fram að Greencore hafi frest til 11. apríl næstkomandi til að leggja fram leggja fram skuldbindandi tilboð. Annars beri félaginu að falla frá yfirtökuáformunum, samkvæmt breskum lögum um yfirtökur.
Bræðurnir Ágúst og Lýður Guðmundssynir eiga samtals um 49,1% hlut í Bakkavör og Sigurður Valtýsson á 1,1% hlut. Samanlagt eiga fara með ráðandi hlut eða 50,2%. Markaðsvirði eignarhlutar þeirra þriggja nemur yfir 90 milljörðum króna í dag.