Hlutabréfaverð Íslandsbanka rauk upp um 6% strax við opnun markaða í morgun og fór í 133,5 krónur. Gengið hefur lækkað örlítið í fyrstu viðskiptum og stendur í 130 krónum þegar þetta er skrifað sem jafngildir um 3,2% hækkun frá dagslokagengi föstudagsins.
Hlutabréf í Arion banka hafa einnig hækkað um rúm 2% og stendur gengið í 175,5 krónum þegar fréttin er skrifuð.
Um 327 milljón króna velta hefur verið með gengi Íslandsbanka og um 1,6 milljarða króna velta með gengi Arion banka. Nær öll veltan hefur verið utanþingsviðskipti sem tilkynnt var um fyrir opnun markaða.
Eftir lokun markaða á föstudaginn greindi stjórn Arion banka frá áhuga sínum á því að hefja viðræður við stjórn Íslandsbanka um samruna félaganna.
Bréf þess efnis var sent til stjórnarformanns og bankastjóra Íslandsbanka.
Í kauphallartilkynningunni sem Arion birti á föstudaginn segist bankinn sjá mikil tækifæri í samruna bankanna fyrir viðskiptavini, hluthafa og íslenskt hagkerfi.
Það sé staðreynd að þrátt fyrir fjölmargar hagræðingaraðgerðir íslenskra banka á undanförnum árum þá sé kostnaður fjármálakerfisins enn hlutfallslega hár hér á landi í alþjóðlegum samanburði.
Það sé bæði vegna smæðar íslenska hagkerfisins og þeirrar staðreyndar að þrír stærstu bankar landsins eru allir flokkaðir sem kerfislega mikilvæg fjármálafyrirtæki samkvæmt evrópskri löggjöf. Þeir þurfi því að uppfylla flókið og umfangsmikið regluverk Evrópusambandsins, sem sé samið með miklu stærri fjármálafyrirtæki í huga, auk séríslenskra reglna.
Við sjáum því einstakt tækifæri í því að sameina Arion banka og Íslandsbanka. Þannig verður til skilvirkari og öflugri banki sem er betur í stakk búinn að mæta þörfum viðskiptavina, fjárfesta í auknum mæli í þróun og nýsköpun og styðja við vöxt íslensks efnahagslífs.
Hægt verður að ná fram umtalsverðri samlegð með samruna bankanna og draga þar með úr kostnaði í íslensku fjármálakerfi neytendum og hluthöfum bankanna til góða.
Stjórn Íslandsbanka hefur greint frá því að stjórnin muni taka erindið til umræðu og ákveða næstu skref af hálfu bankans