Hluta­bréfa­verð Ís­lands­banka rauk upp um 6% strax við opnun markaða í morgun og fór í 133,5 krónur. Gengið hefur lækkað ör­lítið í fyrstu við­skiptum og stendur í 130 krónum þegar þetta er skrifað sem jafn­gildir um 3,2% hækkun frá dagsloka­gengi föstu­dagsins.

Hluta­bréf í Arion banka hafa einnig hækkað um rúm 2% og stendur gengið í 175,5 krónum þegar fréttin er skrifuð.

Um 327 milljón króna velta hefur verið með gengi Íslandsbanka og um 1,6 milljarða króna velta með gengi Arion banka. Nær öll veltan hefur verið utanþingsviðskipti sem tilkynnt var um fyrir opnun markaða.

Eftir lokun markaða á föstu­daginn greindi stjórn Arion banka frá áhuga sínum á því að hefja viðræður við stjórn Ís­lands­banka um sam­runa félaganna.

Bréf þess efnis var sent til stjórnar­for­manns og banka­stjóra Ís­lands­banka.

Í kaup­hallar­til­kynningunni sem Arion birti á föstudaginn segist bankinn sjá mikil tækifæri í sam­runa bankanna fyrir við­skipta­vini, hlut­hafa og ís­lenskt hag­kerfi.

Það sé stað­reynd að þrátt fyrir fjölmargar hag­ræðingarað­gerðir ís­lenskra banka á undan­förnum árum þá sé kostnaður fjár­mála­kerfisins enn hlut­falls­lega hár hér á landi í alþjóð­legum saman­burði.

Það sé bæði vegna smæðar ís­lenska hag­kerfisins og þeirrar stað­reyndar að þrír stærstu bankar landsins eru allir flokkaðir sem kerfis­lega mikilvæg fjár­mála­fyrir­tæki sam­kvæmt evrópskri löggjöf. Þeir þurfi því að upp­fylla flókið og um­fangs­mikið reglu­verk Evrópu­sam­bandsins, sem sé samið með miklu stærri fjár­mála­fyrir­tæki í huga, auk sérís­lenskra reglna.

Við sjáum því einstakt tækifæri í því að sameina Arion banka og Íslandsbanka. Þannig verður til skilvirkari og öflugri banki sem er betur í stakk búinn að mæta þörfum viðskiptavina, fjárfesta í auknum mæli í þróun og nýsköpun og styðja við vöxt íslensks efnahagslífs.

Hægt verður að ná fram umtalsverðri samlegð með samruna bankanna og draga þar með úr kostnaði í íslensku fjármálakerfi neytendum og hluthöfum bankanna til góða.

Stjórn Íslandsbanka hefur greint frá því að stjórnin muni taka erindið til umræðu og ákveða næstu skref af hálfu bankans