Gengi hlutabréfa netverslunarinnar Boozt hefur lækkað um rúmlega 66% það sem af er ári, eða úr 180 sænskum krónum á hlut niður í um 60 sænskar krónur á hlut.

Skömmu eftir að Covid-19 heimsfaraldurinn fór að breiðast út um heim allan fór gengi hlutabréfa Boozt á mikið flug. Í mars árið 2020 stóð gengi bréfa félagsins í um 40 sænskum krónum á hlut en fór í kjölfarið á mikið flug og hafði í lok árs tæplega fimmfaldast og stóð þá í nærri 187 sænskum krónum á hlut. Gengi hlutabréfa Boozt, sem skráð var á Aðalmarkað kauphallar Nasdaq í Stokkhólmi árið 2017, fór svo hæst í 216,8 sænskar krónur á hlut í apríl 2021. Um síðustu áramót stóð gengið í um 184 sænskum krónum á hlut en gengið hefur eins og fyrr segir lækkað verulega það sem af er ári.

Þegar þetta er skrifað stendur markaðsvirði Boozt í rúmlega 4 milljörðum sænskra króna, sem nemur um 53 milljörðum íslenskra króna. Þegar hlutabréfaverð Boozt fór hæst nam markaðsvirði félagsins rúmlega 14 milljörðum sænskra króna, eða um 190 milljörðum íslenskra króna.

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.