Hlutabréfaverð fasteignafélagsins Eikar hækkaði um rúm 5% í rúmlega 400 milljón króna viðskiptum í dag og var dagslokagengi félagsins 14 krónur. Gengi Eikar hefur ekki verið hærra síðan í ágúst 2022.
Eftir lokun markaða í gær var greint frá því að Eik og hluthafar fasteignafélagsins Festingar hf. hefðu undirritað samkomulag um helstu skilmála vegna fyrirhugaðra kaupa Eikar á öllu hlutafé í síðarnefnda félaginu.
Heildarvirði Festingar í viðskiptunum er áætlað 15,3 milljarðar króna og er fyrirhugað að kaupin verði fjármögnuð með handbæru fé og lánsfé.
Stjórn Eikar greindi einnig frá því í gærkvöldi að arðgreiðslustefna félagsins hefði verið uppfærð og er nú stefnt að því að greiða árlega út arð sem nemur a.m.k. 75% af handbæru fé frá rekstri ársins.
Framangreint hlutfall í fyrri arðgreiðslustefnu félagsins var 50%.
Breytingin er í samræmi við tillögur í opinberu tilboðsyfirliti fjárfestingafélagsins Langasjávar er félagið gerði yfirtökutilboð í allt hlutafé Eikar fyrr á árinu.
Langisjór keypti í lok ágúst 6 milljónir hluta í Eik og tók auk þess við 442 milljónum hluta frá dótturfélagi sínu Brimgörðum en í kjölfarið myndaðist skylda til að leggja fram yfirtökutilboð í félagið.
Örfáir hluthafar tóku tilboði Langasjávaren eftir tilboðið fór Langisjór og tengd félög með 1.106.529.154 hluti í Eik sem samsvarar 32,32% af hlutafé félagsins.
Í tilkynningu Langasjávar í tengslum við yfirtökutilboðið sagðist félagið hafa í hyggju að straumlínulaga eignasafn Eikar, eftir atvikum með sölu eigna, í því skyni að ná fram betri heildararðsemi fjárfestingasafnsins.
Langisjór lagði til að Eik yrði arðgreiðslufélag sem greiði hluthöfum árlega arðgreiðslu sem samsvarar að jafnaði ekki lægra hlutfalli en 75% af handbæru fé.
Fjárfestingafélagið, sem er í eigu systkinanna Eggerts Árna, Guðnýjar Eddu, Gunnars Þórs og Halldórs Páls Gíslabarna sem oft eru kennd við Mata, lagði einnig til að Eik myndi auka skuldsetningu sína til að auka arðsemi eigin fjár.
Þegar tilboð Langasjávar, sem hljóðaði upp á 11 krónur á hlut, var lagt fram var 11,2 krónur það hæsta sem einhver hafði greitt fyrir hlutabréf í Eik á síðustu sex mánuðum.
Sem fyrr segir var dagslokagengi Eikar 14 krónur í dag.
Samkvæmt verðmati Arctica Finance sem stjórn Eikar lét vinna fyrir sig í tengslum við yfirtökuna var virði eign fjár Eikar í byrjun október um 54 milljarðar króna sem jafngildir um 15,8 krónum á hlut.
Gullframleiðsla hjá Amaroq
Gengi Amaroq hækkaði einnig í viðskiptum dagsins en félagið greindi frá því fyrir opnun markaða í gær að gullframleiðsla væri hafin í námu félagsins í Suður-Grænlandi.
Dagslokagengi Amaroq var 153 krónur og hefur það aldrei verið hærra en gengi málmleitarfélagsins fór upp um 1,7% í um 75 milljón króna viðskiptum.
Gengi Oculis leiddi lækkanir en gengi líftæknilyfjafélagsins fór niður um tæp 2% í 208 milljón króna viðskiptum. Dagslokagengið var 2200 krónur.
Úrvalsvísitalan OMXI15 lækkaði um 0,02% og var heildarvelta á markaði 3,5 milljarðar.