Hluta­bréfa­verð fast­eignafélagsins Eikar hækkaði um rúm 5% í rúmlega 400 milljón króna við­skiptum í dag og var dagsloka­gengi félagsins 14 krónur. Gengi Eikar hefur ekki verið hærra síðan í ágúst 2022.

Eftir lokun markaða í gær var greint frá því að Eik og hlut­hafar fast­eignafélagsins Festingar hf. hefðu undir­ritað sam­komu­lag um helstu skilmála vegna fyrir­hugaðra kaupa Eikar á öllu hluta­fé í síðar­nefnda félaginu.

Heildar­virði Festingar í við­skiptunum er áætlað 15,3 milljarðar króna og er fyrir­hugað að kaupin verði fjár­mögnuð með hand­bæru fé og láns­fé.

Stjórn Eikar greindi einnig frá því í gærkvöldi að arð­greiðslu­stefna félagsins hefði verið upp­færð og er nú stefnt að því að greiða ár­lega út arð sem nemur a.m.k. 75% af hand­bæru fé frá rekstri ársins.

Framan­greint hlut­fall í fyrri arð­greiðslu­stefnu félagsins var 50%.

Breytingin er í samræmi við til­lögur í opin­beru til­boðs­yfir­liti fjár­festingafélagsins Langa­sjávar er félagið gerði yfir­töku­til­boð í allt hluta­fé Eikar fyrr á árinu.

Langi­sjór keypti í lok ágúst 6 milljónir hluta í Eik og tók auk þess við 442 milljónum hluta frá dóttur­félagi sínu Brim­görðum en í kjölfarið myndaðist skylda til að leggja fram yfir­töku­til­boð í félagið.

Örfáir hlut­hafar tóku til­boði Langa­sjávaren eftir til­boðið fór Langi­sjór og tengd félög með 1.106.529.154 hluti í Eik sem sam­svarar 32,32% af hluta­fé félagsins.

Í til­kynningu Langa­sjávar í tengslum við yfir­töku­til­boðið sagðist félagið hafa í hyggju að straum­línu­laga eigna­safn Eikar, eftir at­vikum með sölu eigna, í því skyni að ná fram betri heildararð­semi fjár­festinga­safnsins.

Langi­sjór lagði til að Eik yrði arð­greiðslufélag sem greiði hlut­höfum ár­lega arð­greiðslu sem sam­svarar að jafnaði ekki lægra hlut­falli en 75% af hand­bæru fé.

Fjár­festingafélagið, sem er í eigu syst­kinanna Eggerts Árna, Guðnýjar Eddu, Gunnars Þórs og Halldórs Páls Gísla­barna sem oft eru kennd við Mata, lagði einnig til að Eik myndi auka skuld­setningu sína til að auka arð­semi eigin fjár.

Þegar til­boð Langa­sjávar, sem hljóðaði upp á 11 krónur á hlut, var lagt fram var 11,2 krónur það hæsta sem ein­hver hafði greitt fyrir hluta­bréf í Eik á síðustu sex mánuðum.

Sem fyrr segir var dagsloka­gengi Eikar 14 krónur í dag.

Sam­kvæmt verðmati Arcti­ca Finance sem stjórn Eikar lét vinna fyrir sig í tengslum við yfir­tökuna var virði eign fjár Eikar í byrjun október um 54 milljarðar króna sem jafn­gildir um 15,8 krónum á hlut.

Gullframleiðsla hjá Amaroq

Gengi Amaroq hækkaði einnig í við­skiptum dagsins en félagið greindi frá því fyrir opnun markaða í gær að gull­fram­leiðsla væri hafin í námu félagsins í Suður-Græn­landi.

Dagsloka­gengi Amaroq var 153 krónur og hefur það aldrei verið hærra en gengi málm­leitarfélagsins fór upp um 1,7% í um 75 milljón króna við­skiptum.

Gengi Ocu­lis leiddi lækkanir en gengi líftækni­lyfjafélagsins fór niður um tæp 2% í 208 milljón króna við­skiptum. Dagsloka­gengið var 2200 krónur.

Úr­vals­vísi­talan OMXI15 lækkaði um 0,02% og var heildar­velta á markaði 3,5 milljarðar.