Hluta­bréfa­verð Eim­skips hækkaði um 3,5% í um 772 milljón króna við­skiptum í dag.

Dagsloka­gengi gáma­flutningafélagsins var 452 og hefur ekki verið hærra í rúmt ár en gengið hefur hækkað um tæp 18% á árinu.

Gengi Festi hækkaði um tæp 2% í milljarða króna við­skiptum en von er á árs­upp­gjöri frá félaginu í byrjun febrúar.

Hluta­bréfa­verð Festi rauk upp eftir upp­gjör þriðja árs­fjórðungs í haust er félagið birti sitt fyrsta upp­gjör eftir sam­runann við Lyfju.
Gengi Festi hefur hækkað um tæp 48% síðastliðið ár og var dagsloka­gengið 289 krónur.

Hluta­bréfa­verð málm­leitarfélagsins Amaroq leiddi lækkanir á aðal­markaði er gengi félagsins fór niður um 3% í 232 milljóna við­skiptum.

Gengi Amaroq hefur verið í hæstu hæðum síðustu vikur eftir að félagið fram­leiddi sinn fyrsta gull­mola á Græn­landi undir lok síðasta árs.

Úr­vals­vísi­talan hækkaði um 0,07% og var heildar­velta á markaði 7,7 milljarðar.