Bandaríski hlutabréfamarkaðurinn opnaði grænn í morgun en helstu hlutabréfavísitölur Bandaríkjanna hafa hækkað um 1,3%-2,2% það sem af er degi. Hlutabréfverð ýmissa bandarískra banka, sem fjárfestar hafa haft áhyggjur af eftir fall Silcon Valley Bank (SVB), hefur tekið stökk í dag.

Hlutabréf First Republic Bank hafa hækkað um tæplega 57% frá opnun markaða í dag og hafa unnið upp hluta af 62% lækkun gærdagsins. Gengi bankans stendur nú í 49 dölum á hlut og er enn um 60% lægra en í upphafi árs. Ýmsir fjárfestar hafa haft áhyggjur um að First Republic, sem er með yfir 200 milljarða dala í eignir, sé í hættu á að falla.

Þá hefur gengi Western Alliance Bancorp, banka í Phoenix í Arizona, hækkað um 49% í viðskiptum dagsins. Hlutabréf Western Alliance féllu um 47% í verði í gær.

Fjárfestingarstjóri hjá Premier Miton Investors sagði við Financial Times að smitáhrif vegna falls SVB og Signature Bank virðist vera takmörkuð. Þá hafi stjórnvöld komið að borðinu með stuðningsaðgerðir sem dragi úr líkum á frekari áföllum í bankageiranum að svo stöddu.

Í hádeginu í dag var greint frá því að verðbólga í Bandaríkjunum hefði hjaðnað úr 6,4% í 6,0% á milli janúar og febrúar. Verðbólgutölurnar voru í samræmi við spár hagfræðinga.

Hækkun helstu hlutabréfavísitala Bandaríkjanna það sem af er degi:

  • S&P 500: +1,9%
  • Nasdaq Composite: +2,2%
  • Dow Jones Industrial Average: +1,4%