Úrvalsvísitalan hefur lækkað um 0,2% það sem af er degi í 1,7 milljarða króna veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag.
Gengi Haga, móðurfélags Bónus, Hagkaups og Olís, hefur hækkað mest eða um 3,8% í yfir 400 milljóna króna veltu.
Hlutabréfaverð Haga stendur nú í 109 krónum á hlut og hefur nú hækkað um 6,8% frá því að félagið birti árshlutauppgjör á fimmtudaginn í síðustu viku. Jafnframt keypti félagið eigin bréf að andvirði 103 milljónir króna með öfugu tilboðsfyrirkomulagi í byrjun vikunnar.
Mesta veltan, eða yfir hálfur milljarður króna, hefur verið með bréf Íslandsbanka sem hafa lækkað um 0,9%. Gengi Íslandsbanka stendur nú í 117 krónum á hlut.
Hlutabréf Play, Alvotech, JBT Marels og Skeljar hafa lækkað um meira en eitt prósent í dag, en þess ber að geta að velta með bréf umræddra félaga hefur verið afar lítil í dag.