Úrvalsvísitalan lækkaði um eitt prósent í 2,8 milljarða króna veltu í dag. Fimmtán félög aðalmarkaðarins lækkuðu og fimm hækkuðu.

Hlutabréfaverð Hampiðjunnar lækkaði um 1,3% í yfir hundrað milljóna króna veltu. Eftir lækkanir síðustu daga er gengi Hampiðjunnar komið niður í 116,5 krónur á hlut og hefur ekki verið lægra síðan í janúar 2023.

Hlutabréfaverð Hampiðjunnar er nú 2,9% lægra en 120 króna útboðsgengi fyrir almenna fjárfesta í 11 milljarða króna almennu hlutafjárútboði félagsins sem lauk í júní 2023. Þá er markaðsgengið 10,4% lægra en 130 króna útboðsgengið í bók B, fyrir fagfjárfesta, í umræddu útboði.

Hampiðjan birti uppgjör fyrir annan ársfjórðung á fimmtudaginn síðasta. Forstjóri Hampiðjunnar, Hjörtur Erlendsson, sagði annan ársfjórðung hafa verið undir væntingum en tekjur félagsins drógust saman milli ára.

Auk Hampiðjunnar þá lækkaði gengi hlutabréfa Arion banka, Marel, Íslandsbanka, Nova, Sjóvá, Skaga og Alvotech um meira en eitt prósent í dag. Festi og fasteignafélögin Heimar og Kaldalón voru einu félögin sem hækkuðu um meira en eitt prósent í viðskipum dagsins.