Gengi bréfa Icelandair hefur hækkað um 4,3% það sem af er degi. Velta með bréfin nemur um 835 milljónum króna. Hlutabréfaverð flugfélagsins er nú komið í 2,19 krónur á hvern hlut og hefur ekki verið hærra frá því í febrúar 2022.

Icelandair birti tölur um fjölda farþega í júní í morgun. Þar kom fram að heildarfjöldi farþega félagsins hafi verið um 519 þúsund, rúmlega 20% fleiri en á sama tíma í fyrra. Samtals 1,8 milljónir farþega flugu með félaginu á fyrstu sex mánuðum ársins, sem er 31% meira en á sama tíma í fyrra.

Þá greindi Icelandair frá því fyrr í dag að það hefði gengið frá samningum við Airbus um kaup á 25 Airbus vélum.