Hlutabréfaverð Icelandair hefur fallið um meira en 7% í fyrstu viðskiptum í dag og stendur í 1,34 krónum á hlut þegar fréttin er skrifuð. Flugfélagið birti ársuppgjör í gær.

Icelandair skilaði hagnaði eftir skatta á ársgrundvelli í fyrsta sinn frá árinu 2017. Hins vegar var afkoma fjórða ársfjórðungs undir væntingum.

EBIT-afkoma á fjórðungnum var neikvæð um 7 milljarða króna og var töluvert verri en á sama tímabili árið áður. Jarðhræringar, eldgos og verkföll flugumferðastjóra höfðu mikil áhrif á afkomuna á síðasta fjórðungi.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, sagði í afkomutilkynningunni að þessar krefjandi aðstæður muni fylgja félaginu inn í fyrsta ársfjórðung og gera megi ráð fyrir að reksturinn á fyrri hluta ársins verði krefjandi. Útlitið sé hins vegar gott fyrir næsta sumar.