Hluta­bréfa­verð Icelandair hefur hækkað um rúm 4% í tæp­lega 150 milljón króna við­skiptum í morgun en flug­félagið birti farþegatölur eftir lokun markaða í gær.

Gengi flug­félagsins hefur nú hækkað um tæp­lega 14% síðastliðinn mánuð. Þegar þetta er skrifað stendur gengið í 1,48 krónum á hlut en dagsloka­gengi flug­félagsins var síðast svo hátt í janúar í fyrra.

Sam­kvæmt kaup­hallar­til­kynningu félagsins í gær flutti Icelandair 4,7 milljónir farþega árið 2024, 9% fleiri en árið á undan og sló þar með nýtt farþega­met.

Farþegar í desember voru 312 þúsund, 18% fleiri en á sama tíma í fyrra. Þar af voru 28% á leið til Ís­lands, 19% frá Ís­landi, 47% ferðuðust um Ís­land og 6% innan Ís­lands.

Sætanýting í desember var 82,6%, sem er met og aukning um 10,2 pró­sentu­stig frá fyrra ári.

„Eftir­spurn er sterk á öllum mörkuðum en munurinn á milli ára skýrist einnig af því að eld­gos hafði neikvæð áhrif á sætanýtingu í fyrra,“ segir í til­kynningu Icelandair.

„Við höldum áfram að sjá jákvæðar tölur í farþega­leiða­kerfinu og er mjög ánægju­legt að sjá nýtt met í sætanýtingu í desember. Þrátt fyrir að veður­far á Ís­landi hafi haft um­tals­verð áhrif á stund­vísi okkar í mánuðinum var stund­vísi yfir árið mjög góð og jókst hún um sex pró­sentu­stig saman­borið við árið í fyrra,“ sagði Bogi Nils Boga­son for­stjóri Icelandair í til­kynningunni.