Gengi Icelandair hefur fallið um 8,71% í 117 milljón króna viðskiptum frá því að Kauphöllin opnaði í morgun. Gengið stendur þegar þetta er skrifað í 1,52 krónum og hefur ekki verið lægra í rúmt ár en það hefur nú lækkað um 22,45% síðastliðinn mánuð.
Icelandair færði afkomuspá sína fyrir árið niður í gærkvöldi og gerir félagið nú ráð fyrir að rekstrarhagnaður (EBIT) verði á bilinu 50-65 milljónir dala sem samsvarar 3,3-4,3% af tekjum. Fyrri spá flugfélagsins gerði ráð fyrir að EBIT-hagnaður yrði á bilinu 4-6% í ár.
Icelandair gerir þó áfram ráð fyrir hagnaði af rekstri félagsins eftir fjármagnsliði og skatta fyrir árið í heild, að því er segir í tilkynningu Icelandair til Kauphallarinnar.
Í afkomuspánni segir að fraktstarfsemi félagsins hafi reynst mjög krefjandi og sá afkomubati sem gert var ráð fyrir við birtingu annars ársfjórðungs hafi ekki skilað sér. Frá sama tíma hefur eldsneytisverð hækkað um tæplega 30%.
Icelandair ætlaði að leggja ríka áherslu á að ná fraktstarfseminni aftur í jákvæðan rekstur en greint var frá því í morgun að Gunnar Már Sigurfinnsson, framkvæmdastjóri Icelandair Cargo, hefði sagt starfi sínu lausu og tekur uppsögnin gildi samstundis.
Icelandair sagði í afkomuspánni að horfur í farþegaflugi væru góðar og bókunarstaðan væri sterk það sem eftir lifir árs. Horfur í leiguflugstarfsemi væru einnig góðar en sem fyrr segir væri fraktstarfsemin krefjandi.
„Fjárhagsstaða Icelandair er mjög sterk og félagið vel í stakk búið til áframhaldandi arðbærs vaxtar.“
Þegar hefur verið gengið frá samningum um þrjár farþegavélar til viðbótar í flota félagsins fyrir næsta ár sem munu skapa tækifæri fyrir félagið til að stækka leiðakerfið og auka framboð um í kringum 10% á milli ára.“
Uppfærð afkomuspá gerir ráð fyrir að vegið meðalverð á hvert tonn af þotueldsneyti (án tillits til varna) verði 990 USD/tonn út tímabilið. Félagið hefur gert samninga um eldsneytisvarnir sem samsvara um 43% af eldsneytisnotkun frá september til desember á meðalverðinu 864 USD/tonn.
Áætlað er að gengi USD á móti íslensku krónunni verði að meðaltali 134 það sem eftir lifir árs.