Gengi Icelandair hefur fallið um 8,71% í 117 milljón króna við­skiptum frá því að Kaup­höllin opnaði í morgun. Gengið stendur þegar þetta er skrifað í 1,52 krónum og hefur ekki verið lægra í rúmt ár en það hefur nú lækkað um 22,45% síðast­liðinn mánuð.

Icelandair færði af­komu­spá sína fyrir árið niður í gær­kvöldi og gerir fé­lagið nú ráð fyrir að rekstrar­hagnaður (EBIT) verði á bilinu 50-65 milljónir dala sem sam­svarar 3,3-4,3% af tekjum. Fyrri spá flug­fé­lagsins gerði ráð fyrir að EBIT-hagnaður yrði á bilinu 4-6% í ár.

Icelandair gerir þó á­fram ráð fyrir hagnaði af rekstri fé­lagsins eftir fjár­magns­liði og skatta fyrir árið í heild, að því er segir í til­kynningu Icelandair til Kaup­hallarinnar.

Í af­komu­spánni segir að frakt­starf­semi fé­lagsins hafi reynst mjög krefjandi og sá af­komu­bati sem gert var ráð fyrir við birtingu annars árs­fjórðungs hafi ekki skilað sér. Frá sama tíma hefur elds­neytis­verð hækkað um tæp­lega 30%.

Icelandair ætlaði að leggja ríka á­herslu á að ná frakt­starf­seminni aftur í já­kvæðan rekstur en greint var frá því í morgun að Gunnar Már Sigurfinnsson, fram­kvæmda­stjóri Icelandair Cargo, hefði sagt starfi sínu lausu og tekur upp­sögnin gildi sam­stundis.

Icelandair sagði í af­komu­spánni að horfur í far­þega­flugi væru góðar og bókunar­staðan væri sterk það sem eftir lifir árs. Horfur í leigu­flug­starf­semi væru einnig góðar en sem fyrr segir væri frakt­starf­semin krefjandi.

„Fjár­hags­staða Icelandair er mjög sterk og fé­lagið vel í stakk búið til á­fram­haldandi arð­bærs vaxtar.“

Þegar hefur verið gengið frá samningum um þrjár far­þega­vélar til við­bótar í flota fé­lagsins fyrir næsta ár sem munu skapa tæki­færi fyrir fé­lagið til að stækka leiða­kerfið og auka fram­boð um í kringum 10% á milli ára.“

Upp­færð af­komu­spá gerir ráð fyrir að vegið meðal­verð á hvert tonn af þotu­elds­neyti (án til­lits til varna) verði 990 USD/tonn út tíma­bilið. Fé­lagið hefur gert samninga um elds­neytis­varnir sem sam­svara um 43% af elds­neytis­notkun frá septem­ber til desember á meðal­verðinu 864 USD/tonn.

Á­ætlað er að gengi USD á móti ís­lensku krónunni verði að meðal­tali 134 það sem eftir lifir árs.