Úrvalsvísitalan hækkaði um 1,6% í 6,2 milljarða króna veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar. Aftur var mesta veltan með hlutabréf Íslandsbanka eða um 1,2 milljarðar en gengi bankans stóð óbreytt í 127 krónum við lokun Kauphallarinnar.
Icelandair leiddi hækkanir á aðalmarkaðnum en gengi flugfélagsins hækkaði um 5% í tæplega 600 milljóna króna veltu og stendur nú í 1,89 krónum á hlut. Hlutabréfaverð Icelandair hefur nú hækkað um 26% frá því að það fór lægst á árinu í 1,5 krónur þann 8. mars síðastliðinn. Gengi Play hækkaði einnig um 3,5% í 71 milljón króna veltu og stendur nú í 23,6 krónum á hlut. Einnig mátti sjá hlutabréfaverð stærstu flugfélaga heims hækka um nokkur prósent í dag.
Þá hækkaði gengi Marels um 3% í 740 milljóna veltu og er aftur komið upp í 756 krónur á hlut. Hlutabréfaverð Marels hefur lækkað um 13,5% frá áramótum. Einnig hækkuðu Brim og Hagar um meira en 1% í dag.
Hlutabréfavísitalan Stoxx Europe 600 hefur hækkað um 1,6%, FTSE 100 um 0,8% og S&P 500 um 0,5% í dag. Þá hefur olíuverð lækkað nokkuð í dag en verð á framvirkum samningi af tunnu af Brent hráolíu hefur lækkað um nærri 4% og stendur í 108 dölum.
Hækkanir á hlutabréfamörkuðum og lækkun olíuverðs skýrast af hluta af fyrstu friðarviðræðum á milli Rússlands og Úkraínu í tvær vikur sem fóru fram í Istanbúl í dag. Fulltrúar Úkraínu sögðust vera tilbúnir að taka upp stöðu hlutlauss ríkis, sem hefur verið ein af lykilköfum Rússlands, að gefnu loforði um varnaraðstoð frá Vesturlöndum. Krafan felur í sér að Úkraína gangi ekki inn í hernaðarbandalög á borð við Nató.