Gengi Icelandair hefur hækkað um tæp 5% það sem af er degi eftir gengishrun í næstum tveggja milljarða króna veltu í gær.
Markaðsvirði Icelandair lækkaði um rúma fjóra milljarða í gær er gengið féll um 6,31%.
Dagslokagengið var 1,56 krónur en það stendur í 1,64 krónum þegar þetta er skrifað eftir 176 milljón króna viðskipti.
Gengið hefur þannig hækkað um 1,4% á árinu eftir 16,15% lækkun síðastliðinn mánuð.
Icelandair færði afkomuspá sína fyrir árið niður á miðvikudagskvöldið og gerir félagið nú ráð fyrir að rekstrarhagnaður (EBIT) verði á bilinu 50-65 milljónir dala sem samsvarar 3,3-4,3% af tekjum. Fyrri spá flugfélagsins gerði ráð fyrir að EBIT-hagnaður yrði á bilinu 4-6% í ár.
Í afkomuspánni segir að fraktstarfsemi félagsins hafi reynst mjög krefjandi og sá afkomubati sem gert var ráð fyrir við birtingu annars ársfjórðungs hafi ekki skilað sér.
Tilkynnti félagið í gærmorgun að Gunnar Már Sigurfinnsson væri hættur sem framkvæmdastjóri Icelandair Cargo.