Úrvalsvísitalan lækkaði um 0,25% í 6,6 milljarða króna veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Lækkunina má einkum rekja til þess að hlutabréfaverð Marels féll um 3,2% í ríflega 300 milljóna veltu. Tuttugu félög aðalmarkaðarins hækkuðu í viðskiptum dagsins og þrjú lækkuðu.

Hlutabréfaverð Icelandair hækkaði um 3,25% í nærri 450 milljóna króna veltu í dag. Gengi hlutabréfa flugfélagsins er komið upp í 1,43 krónur á hlut eftir 14,4% hækkun á einum mánuði. Hlutabréfaverð flugfélagsins hefur ekki verið hærra síðan í byrjun febrúar síðastliðnum.

Hlutabréfaverð Play hækkaði einnig um 3,9% í níu viðskiptum upp á ríflega eina milljón króna. Gengi Play stendur nú í 1,07 krónum á hlut.

Þá hækkuðu hlutabréf Brims um 3,3%, Ísfélagsins um 2,8% og Síldarvinnslunnar um 1,6% í viðskiptum dagsins. Þá hækkaði hlutabréfaverð Hampiðjunnar um 2,3%.

Sviðsstjóri uppsjávarsviðs Hafrannsóknastofnunar sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær, eftir að fyrsta leitarleiðangri vetrarins lauk, að full ástæða sé til að ætla að loðnuvertíð gæti orðið í vetur.