Hlutabréfaverð ISI hefur hækkað um rúm 7% í um 273 milljón króna viðskiptum í morgun. Gengi félagsins stendur í 5,25 krónum sem samsvarar um 16% hækkun frá dagslokagengi miðvikudagsins.
Samanlögð velta með bréf félagsins síðustu tvo daga er því komin yfir hálfan milljarð sem er næstmesta tveggja daga velta með bréf ISI á árinu.
Líkt og Viðskiptablaðið greindi frá í gær keypti Jakob Valgeir ehf., sem er í eigu Jakobs Valgeirs Flosasonar og fjölskyldu, hlutabréf í Iceland Seafood International (ISI) fyrir 122,5 milljónir króna í gær.
Alls keypti félagið 25 milljónir hluta í ISI á genginu 4,90 krónur á hlut, sem er um 8,4% hærra en dagslokagengi ISI í gær. Hlutabréfaverð Iceland Seafood var síðast hærra við lokun Kauphallarinnar í lok október.
Jakob Valgeir ehf. á eftir viðskiptin tæplega 345 milljónir hluta, eða um 11,3% eignarhlut í ISI sem er um 1,7 milljarðar króna að markaðsvirði. Jakob Valgeir Flosason hefur setið í stjórn ISI frá því í febrúar 2019.
Halldór Leifsson, sem situr einnig í stjórn ISI, keypti 222 þúsund hluti í félaginu fyrir ríflega eina milljón króna á genginu 4,60 krónur á hlut.
Samkvæmt uppgjöri þriðja ársfjórðungs jókst sala félagsins um 6,5% og nam 102 milljónum evra sem samsvarar um 14,8 milljörðum króna á gengi dagsins.
Samkvæmt uppgjöri þriðja ársfjórðungs jókst sala félagsins um 6,5% og nam 102 milljónum evra sem samsvarar um 14,8 milljörðum króna á gengi dagsins.
Nettótap samstæðunnar á fyrstu níu mánuðum ársins nam 1,5 milljónum sem er töluverður viðsnúningur frá fyrra ári er félagið tapaði 20,7 milljónum evra.
Samkvæmt afkomuspá fyrir árið áætlaði ISI að aðlöguð afkoma fyrir skatta á árinu yrði á bilinu 5 til 7 milljónir evra.
Sala félagsins á fyrstu níu mánuðum ársins nam 314 milljónum evra sem er um 1,3% aukning milli ára.
„Fyrstu níu mánuðir ársins 2024 hafa staðfest að við erum á réttri leið. Helstu lykilmælikvarðar hafa farið í rétta átt. Þetta er jákvæð þróun við krefjandi markaðsaðstæður, svo sem hátt vaxtastig, verðbólgu, hátt hráefnisverð og lægri eftirspurn.
Við sjáum batamerki á mörkuðum, sérstaklega í Evrópu, og aukna eftirspurn í Bandaríkjunum, meðal annars vegna banns á innflutningi á rússneskum fiski. Við væntum þess að þorsksverð haldist hátt á næstu árum vegna kvótaskerðingar í Barentshafi. Laxaverð var hátt fyrri hluta ársins en hefur verið stöðugt síðan og gæti hækkað undir lok ársins,” sagði Ægir Páll Friðbertsson, forstjóri félagsins í uppgjörinu.
Viðsnúningur varð á rekstri félagsins á fjórða ársfjórðungi í fyrra. Félagið tapaði 3 milljörðum króna á fyrstu níu mánuðum ársins 2023 en skilaði síðan hagnaði upp á 403 þúsund evrur, eða um 60 milljónir króna, á fjórða ársfjórðungi.
Var það í fyrsta sinn frá þriðja ársfjórðungi 2022 sem félagið skilar hagnaði eftir skatta.
ISI skilaði hagnaði aftur á fyrsta ársfjórðungi 2024 eftir um 2,2 milljóna evra tap á sama tímabili í fyrra en félagið skilaði aftur tapi á öðrum ársfjórðungi.