Hluta­bréfa­verð Iceland Sea­food International hefur hækkað um 4% í við­skiptum dagsins en félagið birtir árs­hluta­upp­gjör eftir lokun markaða í dag.

Viðsnúningur varð á rekstri félagsins á fjórða árs­fjórðungi í fyrra. Félagið tapaði 3 milljörðum króna á fyrstu níu mánuðum ársins 2023 en skilaði síðan hagnaði upp á 403 þúsund evrur, eða um 60 milljónir króna, á fjórða árs­fjórðungi.

Var það í fyrsta sinn frá þriðja árs­fjórðungi 2022 sem félagið skilar hagnaði eftir skatta.

ISI skilaði hagnaði aftur á fyrsta árs­fjórðungi 2024 eftir um 2,2 milljóna evra tap á sama tíma­bili í fyrra en félagið skilaði aftur tapi á öðrum árs­fjórðungi.

Á fyrri árs­helmingi tapaði ISI um 730 þúsund evrum eða 109 milljónum króna, eftir skatta á fyrri árs­helmingi.

Eftir upp­gjör annars árs­fjórðungs sagði Ægir Páll Friðberts­son, for­stjóri ISI, að áfram væri óvissa í rekstrar­um­hverfi félagsins og að stjórn­endur gerður ráð fyrir að svo yrði áfram.

Hátt vaxta­stig væri að gera mörgum rekstraraðilum í iðnaðinum erfitt fyrir og al­mennt væri búist við krefjandi rekstraraðstæðum og viðvarandi verðbólgu.

Seðla­banki Ís­lands lækkaði þó vexti um 50 punkta í morgun og upp­færði verðbólgu­spá sína sem gerir nú ráð fyrir meiri hjöðnun en upp­haf­lega var spáð í ágúst þegar ISI birti árs­hluta­upp­gjör fyrri árs­helmings.

Sem fyrr segir er von á upp­gjöri frá félaginu seinna í dag.