Hlutabréfaverð Iceland Seafood International hækkaði um rúm 8% í 164 milljón króna viðskiptum í dag.
Dagslokagengi félagsins var 4,9 krónur en hlutabréf ISI hafa lækkað um 14% á árinu.
Samkvæmt uppgjöri þriðja ársfjórðungs jókst sala félagsins um t. d. um 6,5% og nam 102 milljónum evra sem samsvarar um 14,8 milljörðum króna á gengi dagsins.
Nettótap samstæðunnar á fyrstu níu mánuðum ársins nam 1,5 milljónum sem er töluverður viðsnúningur frá fyrra ári er félagið tapaði 20,7 milljónum evra.
Samkvæmt afkomuspá fyrir árið áætlaði ISI að aðlöguð afkoma fyrir skatta á árinu yrði á bilinu 5 til 7 milljónir evra.
Viðsnúningur varð á rekstri félagsins á fjórða ársfjórðungi í fyrra. Félagið tapaði 3 milljörðum króna á fyrstu níu mánuðum ársins 2023 en skilaði síðan hagnaði upp á 403 þúsund evrur, eða um 60 milljónir króna, á fjórða ársfjórðungi.
Var það í fyrsta sinn frá þriðja ársfjórðungi 2022 sem félagið skilar hagnaði eftir skatta.
ISI skilaði hagnaði aftur á fyrsta ársfjórðungi 2024 eftir um 2,2 milljóna evra tap á sama tímabili í fyrra en félagið skilaði aftur tapi á öðrum ársfjórðungi.
Gengi Amaroq glóir sem gull
Hlutabréfaverð Amaroq hélt áfram að hækka í viðskiptum dagsins og fór gengi félagsins upp um rúm 4% í 274 milljón króna viðskiptum.
Dagslokagengi Amaroq var 171 króna og hefur gengið aldrei verið hærra.
Íslenska málmleitarfélagið tilkynnti í morgun niðurstöður úr tilraunaborunum og sýnatökum í Eagle’s Nest, sem er innan Anoritooq-rannsóknarleyfisins í Nanortalik-gullbeltinu, í um 30 kílómetra fjarlægð frá Nalunaq-gullnámunni.