Hluta­bréfa­verð Ís­lands­banka hækkaði um 2,5% í um 845 milljón króna við­skiptum í dag og var dagsloka­gengi bankans 124 krónur.

Dagsloka­gengi bankans hefur ekki verið hærra á árinu en leita þarf aftur til febrúar í fyrra til að finna hærra gengi á hluta­bréfum bankans.

Hagnaður af rekstri Ís­lands­banka á þriðja árs­fjórðungi nam 7,3 milljörðum króna sam­kvæmt ný­birtum árs­reikningi og var arð­semi eigin fjár 13,2% á árs­grund­velli.

Arð­semi bankans var vel yfir spám grein­enda en meðal­tal sjö greininga á­ætlaði arð­semi bankans um 10,8% á þriðja árs­fjóðungi.

Eigið fé Ís­lands­banka nam 223,4 milljörðum króna í lok árs­fjórðungsins, saman­borið við 224,7 milljarða króna í lok árs 2023.

Fjár­festar voru komnir í start­holurnar

Fjár­mála­ráðu­neytið greindi ný­verið frá því að út­boði ríkisins á helmings­hlut sínum í bankanum yrði slegið á frest en til stóð að ljúka út­boðinu fyrir ára­mót en fjár­lög næsta árs gera ráð fyrir um allt að 45 milljarða króna sölu­hagnaði af út­boðinu.

Sam­kvæmt heimildum Við­skipta­blaðsins nemur kostnaður við undir­búning út­boðsins tugum milljóna króna og fyrir­séð að efna verður til slíks kostnaðar að nýju ef út­boðið hefði ekki klárast fyrir lok þessa árs­fjórðungs.

Ríkið á um 850 milljón hluti í Ís­lands­banka sem sam­svarar um 42,5% hlut. Miðað við dagsloka­gengi bankans er hlutur ríkisins metinn á 105,4 milljarða króna.

Sam­kvæmt sér­fræðingum á skulda­bréfa­markaði mun ríkið að öllum líkindum mæta fjár­lagatinu með sölu á ríkis­víxlum fremur en út­gáfu á ó­verð­tryggðum eða verð­tryggðum ríkis­skulda­bréfum.

Uppgjör flugfélaganna vonbrigði

Flug­fé­lagið Play leiddi lækkanir á aðal­markaði í dag er gengi fé­lagsins fór niður um 13% í 16 milljón króna við­skiptum. Dagsloka­gengi Play nam 0,82 krónum og hefur aldrei verið lægra.

Flug­fé­lagið birti árs­hluta­reikning þriðja árs­fjórðungs eftir lokun markaða í gær en fé­lagið hagnaðist um 500 milljónir króna á fjórðungnum sem er um þriðjungs­lækkun milli ára.

Lausa­fjár­staða fé­lagsins var 39,8 milljónir banda­ríkja­dala við lok árs­fjórðungsins og hefur því aukist um 0,6 milljónir banda­ríkja­dala á milli ára.

Einar Örn Ólafs­son, for­stjóri Play, sagði á fjár­festa­fundi í gær að lausa­fjár­staða fé­lagsins væri betri en í fyrra en fram undan eru miklar breytingar á við­skipta­líkani flug­fé­lagsins.

Breytingin felur í sér að á­fanga­stöðum í Norður-Ameríku og Norður-Evrópu verður fækkað frá og með miðju næsta ári.

Á hinn bóginn verður á­ætlun fé­lagsins til Suður-Evrópu efld. Í til­kynningu flug­fé­lagsins er bent á að bein flug til á­fanga­staða fé­lagsins í Suður-Evrópu hafi verið arð­bær frá upp­hafi.

Með­fram nýju við­skipta­líkani hefur Play hafið um­sóknar­ferli um flug­rekstrar­leyfi á Möltu til að greiða fyrir fjöl­breyttari starf­semi á vegum fé­lagsins. Reiknar fé­lagið með því að nýja flug­rekstrar­leyfið verði í höfn næsta vor.

Þannig er stefnt að því að fyrsta vél Play sem færð verður yfir á nýtt flug­rekstrar­leyfi verði stað­sett á Tenerife og muni þaðan meðal annars fljúga til Kefla­víkur og Akur­eyrar.

Hagnaðarsamdráttur hjá Icelandair

Hluta­bréfa­verð Icelandair lækkaði einnig í um 200 milljón króna veltu er gengi fé­lagsins fór niður um tæp 3%.

Icelandair birtir árs­hluta­upp­gjör í byrjun vikunnar en af­koma fé­lagsins á þriðja árs­fjórðungi lækkaði á milli ára.

Icelandair hagnaðist um 69,2 milljónir dala eða um 9,5 milljarða króna á þriðja árs­fjórðungi. Hagnaður fé­lagsins á þriðja fjórðungi dróst saman um 18% frá sama tíma­bili í fyrra.

Tekjur fé­lagsins á fjórðungnum drógust saman um 1,2% milli ára og námu 553 milljónum dala eða um 76 milljörðum króna. EBIT-af­koma flug­fé­lagsins lækkaði um fjórðung milli ára og nam 11,4 milljörðum króna.

Bogi Nils Boga­son, for­stjóri Icelandair, sló þó í já­kvæðan tón í upp­gjörinu og sagðist eiga von á „veru­legum rekstrar­bata“ á næstunni.

Amaroq hækkað um 47% á rúmum mánuði

Hluta­bréfa­verð Amaroq hækkaði einnig lítil­lega í við­skiptum dagsins en gengi málm­leitar­fé­lagsins hefur verið á miklu skriði síðustu daga.

Eldur Ólafs­son, for­stjóri og stofnandi Amaroq, sagði í síðasta upp­gjöri fé­lagsins að von væri á að gull­fram­leiðsla fé­lagsins muni hefjast á fjórða árs­fjórðungi.

Hluta­bréfa­verð Amaroq hefur frá miðjum septem­ber hækkað um 47% og farið úr 100 krónum í 147 krónur.

Milljarðavelta með bréf Marels

Lang­mesta veltan var með gengi Marels í dag en gengi fé­lagsins lækkaði um 1% í 2 milljarða króna við­skiptum. Hátt í 6 milljarða króna velta hefur verið með bréf Marels síðustu þrjá daga frá því að John Bean Technologies birti árs­hluta­upp­gjör síðast­liðinn þriðju­dag.

Úr­vals­vísi­talan hækkaði um 0,03% í við­skiptum dagsins en vísi­talan hefur hækkað um rúm 8% síðast­liðinn mánuð og þar af 5% síðast­liðna viku.

Loka­gildi vísi­tölunnar var 2.629,24 og hefur hún ekki verið hærri á árinu. Heildar­velta í Kaup­höllinni í dag var 6 milljarðar.