Úrvalsvísitalan hækkaði um 0,3% í 3,2 milljarða króna veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar. Langmesta veltan, eða um 1,8 milljarðar króna, var með hlutabréf Íslandsbanka sem hækkuðu um 1,3% í verði.

Gengi Íslandsbanka stóð í 121 krónu á hlut og hefur ekki verið hærra síðan í byrjun apríl eða þegar bankinn greiddi út 6,46 krónur á hlut í arð.

Hlutabréfaverð Íslandsbanka er núna um 13,6% hærra en 106,56 króna útboðsgengið í 90 milljarða króna útboðinu um miðjan maí þar sem ríkið seldi eftirstandandi 45% hlut sinn í bankanum. Ríflega 31 þúsund einstaklingar tóku þátt í útboðinu.

Íslandsbanki hóf í síðustu viku endurkaupaáætlun þar sem til stendur að bankinn kaupi eigin bréf fyrir allt að 3 milljarða króna fram til loka septembermánaðar. Sú tilkynning fylgdi beint í kjölfar þess að Kvika hafnaði beiðni Íslandsbanka um samrunaviðræður og ákvað þess í stað að hefja viðræður við Arion banka.

Alvotech upp um 4,3%, Play niður um 10,3%

Alvotech hækkaði mest af félögum Kauphallarinnar eða um 4,3% í hálfs milljarðs króna veltu. Gengi Alvotech stendur nú í 1.090 krónum á hlut og er um 38,6% lægra en í upphafi árs.

Sex félög aðalmarkaðarins lækkuðu um eitt prósent eða meira í viðskiptum dagsins. Flugfélagið Play lækkaði mest eða um 10,3% í átján viðskiptum upp á samtals 2 milljónir króna og stendur gengi Play nú í 0,65 krónum á hlut. Það hefur alls lækkað um 35% í ár.