Gengi Íslandsbanka hélt áfram að falla í dag og stóð í 110 krónum um þrjúleytið eftir 500 milljón króna viðskipti. Gengið hefur fallið um 3,51% það sem af er degi og kemur að ofan á tæplega 3% lækkun í gær.
Dagslokagengið fyrir helgi var 117 krónur. Gengi bankans í kauphöllinni hefur nú fallið um 6,38% sl. mánuð.
Gengi Íslandsbanka byrjaði að lækka í gær eftir að sátt Íslandsbanka og FME um 1,2 milljarða króna sektargreiðslu birtist um morguninn. Í sáttinni segir m.a. að stjórn og bankastjóri bankans hafi sýnt af sér athafnaleysi og að stjórnarhættir innan Íslandsbanka beri vott um skort á áhættuvitund.
Í sáttinni kemur fram að bankinn hafi brotið lög um markaði fyrir fjármálagerninga við útboð á hlut 22,5% ríkisins í Íslandsbanka.