Hlutabréfaverð Íslandsbanka stendur í 113 krónum þegar þetta er skrifað eftir 2,6% lækkun í fyrstu viðskiptum í dag.
Líkt og Viðskiptablaðið greindi frá í gær hafa einstaklingar sem buðu háar fjárhæðir í Íslandsbankaútboðinu fengið símtöl frá Kviku banka um að selja eignarhlut sinn á 114 krónur á hlut.
Þeir sem taka tilboði Kviku fá þannig meira fyrir bréfin en fengist á opnum markaði miðað við núverandi gengi.
Ekki hafa fengist upplýsingar um fyrir hvern bankinn er að vinna.
Ætla má að það sé aðili eða aðilar sem fengu lítið sem ekkert í B eða C bókinni. Þeir sem buðu í bækur B og C eru meðal annars einkafjárfestar, verðbréfafyrirtæki og lífeyrissjóðir.
Hið 114 króna tilboðsverð er 7% hærra en 106,56 króna útboðsgengið í útboðinu.
Fjárfestir sem tók þátt í útboðinu fyrir 20 milljónir króna gæti því selt hlut sinn með 1,4 milljóna króna hagnaði og þarf ekki að fjármagna kaupin.
Um 135 milljón króna velta hefur verið með bréf Íslandsbanka í dag en töluverð velta var með bréf bankans í gær.
Fjögur viðskipti á markaði í gær hljóðuðu upp á meira en hundrað milljónir króna hver og fóru í gegn á bilinu 113,5-115,0 krónur á hlut.
Gengi Íslandsbanka lækkaði um 2,1% í 1,2 milljarða króna viðskiptum í gær.