Úrvalsvísitalan lækkaði um 1,1% í 5,7 milljarða króna veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Sextán félög aðalmarkaðarins lækkuðu í viðskiptum dagsins og sex hækkuðu.

Hlutabréf Íslandsbanka lækkuðu mest af félögum aðalmarkaðarins eða um 3,2% í 144 milljóna króna veltu. Gengi bankans stendur nú í 121 krónu á hlut og er um 2,4% lægra en í upphafi árs.

Þá féll gengi hlutabréfa Alvotech, Amaroq Minerals, JBT Marels, Haga og Oculis um meira en eitt prósent í dag. Hlutabréfaverð síðastnefnda félagsins, sem hefur hækkað um meira en 30% í ár, lækkaði um 3% í viðskiptum dagsins og stendur nú í 3.120 krónum á hlut.

Fasteignafélagið Reitir hækkuðu mest af félögum Kauphallarinnar eða um 1,9% í yfir 300 milljóna króna veltu. Gengi Reita stendur nú í 110 krónum á hlut og er um 6% lægra en í upphafi árs.