Úrvalsvísitalan hækkaði um 0,2% í 6,4 milljarða króna veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Mesta veltan eða um 1,3 milljarðar var með hlutabréf Íslandsbanka sem lækkuðu lítillega. Gengi bankans stendur nú í 128,4 krónum. Íslandsbanki birti ársuppgjör og samþykkti að hefja samrunaviðræður við Kviku í gær.

Auk Íslandsbanka birtu fasteignafélagið Reginn og Sjóvá uppgjör fyrir síðasta ár í gær. Gengi Regins hækkaði um 2,4% í 280 milljóna veltu og stendur nú í 25,8 krónum. Sjóvá hækkaði um 2% í tæplega 400 milljóna veltu og hefur nú alls hækkað um 6,5% í ár.

Þá hækkaði hlutabréfaverð Marels um 1,7% í dag og hefur nú hækkað um 10,7% frá því að félagið birti ársuppgjör eftir lokun markaða á miðvikudaginn. Gengi Marels er komið upp í 600 krónur á hlut eftir 22,5% hækkun í ár og hefur ekki verið hærra síðan í ágúst 2022.

Síldarvinnslan lækkaði um 1,7% í dag, mest af félögum aðalmarkaðarins. Gengi útgerðarfélagsins stendur nú í 117 krónum á hlut og hefur ekki verið lægra síðan í nóvember. Auk Síldarvinnslunnar lækkuðu hlutabréf Arion banka og Icelandair um meira en 1% í dag.