Hluta­bréfa­verð Marels hækkaði um 6,5% í 3,1 milljarða króna við­skiptum í dag en JBT, sem hefur gert yfir­töku­til­boð í Marel birti árs­hluta­upp­gjör í gær.

Stærstu ein­stöku við­skiptin áttu sér stað um hálf tvö­leytið í dag er tæp­lega 490 þúsund hlutir í Marel skiptust um hendur á genginu 540,2 krónur. Um tæp­lega 265 milljóna króna við­skipti var að ræða. Önnur tæp­lega 250 milljón króna við­skipti áttu sér stað tveim mínútum seinna.

Gengi JBT vel yfir viðmiðunargengi

Í árs­hluta­upp­gjöri JBT kom fram að tekjur fé­lagsins námu 454 milljónum Banda­ríkja­dala á þriðja árs­fjórðungi sem sam­svarar um 63 milljörðum króna á gengi dagsins.

Um er að ræða um 12% tekju­aukningu frá þriðja árs­fjórðungi 2023 en hagnaður fyrir fjár­magns­liði og af­skriftir (EBITDA) jókst um 23% og nam 82 milljónum dala.

Gengi JBT hefur hækkað um tæp­lega 13% í við­skiptum dagsins og stendur í 107,6 dölum um þessar mundir. Í yfir­töku­til­boði fé­lagsins á hlutum í Marel er miðað við að við­miðunar­gengi á hvern hlut í JBT sé 96,25 Banda­ríkja­dalir.

Grænar tölur og mikil velta

Úr­vals­vísi­talan OMXI15 hækkaði um 2,74% í við­skiptum dagsins og var loka­gildi hennar 2.616,33 stig. Loka­gildi vísi­tölunnar hefur ekki verið hærra síðan í byrjun febrúar­mánaðar.

Heildarvelta nam 12,1 milljörðum.

Nær öll fé­lög á aðal­markaði hækkuðu í við­skiptum dagsins. Hluta­bréfa­verð Skaga, Haga og Öl­gerðarinnar hækkaði um meira en 5% hvor.

Um hálfs milljarðs króna velta var með bréf Haga í dag og hefur gengi fé­lagsins aldrei verið hærra.

Hluta­bréfa­verð Al­vot­ech hækkaði um 3,5% í 1,4 milljarða króna við­skiptum.

Icelandair var eina fé­lagið á aðal­markaði sem lækkaði svo mark­tækt væri er gengi flug­fé­lagsins fór niður um 3,5% í 250 milljón króna við­skiptum.

Heildar­velta nam 12,1 milljörðum.