Úrvalsvísitalan hækkaði um 1,1% í 5 milljarða króna veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Þrettán félög hækkuðu og tíu lækkuðu í viðskiptum dagsins.
Mesta veltan var með hlutabréf Marels, eða um 911 milljónir króna, en gengi félagsins hækkaði um 1,8% og stendur nú í 580 krónum á hlut. Hlutabréfaverð Marels hefur ekki verið hærra síðan í maí 2023.
Gengi Marels hækkaði talsvert fyrir helgi sem má einkum rekja til þess að hlutabréfaverð JBT hefur hækkað um 20% frá birtingu árshlutauppgjörs á þriðjudaginn síðasta.
Augnlyfjaþróunarfélagið Oculis hækkaði mest af félögum Kauphallarinnar. Gengi Oculis hækkaði um 7,3% í 650 milljóna veltu og stendur nú í 2.360 krónum. Hlutabréfaverð félagsins hefur nú hækkað um 40% á einum mánuði.
Þá hækkaði Hampiðjan um 4,5% í tæpleg 200 milljóna veltu og stendur gengi félagsins nú í 117 krónum á hlut. Þá hækkaði hlutabréfaverð Icelandair um 3,9% í 118 milljóna veltu og stendur nú í 1,08 krónum á hlut.