Hlutabréf fjölmiðlafyrirtækisins Newsmax hafa hækkað um meira en 2.200% frá því fyrirtækið var skráð á markað á mánudaginn.

Útboðsgengið í frumútboði Newsmax var 10 dalir á hlut en við lokun markaða í gær stóð hlutabréfaverð félagsins í 233 dölum. Hlutabréfaverð félagsins hefur lækkað um 23% í viðskiptum fyrir opnun markaða og stendur nú í 180 dölum á hlut.

Markaðsvirði fyrirtækisins nemur ríflega 20 milljörðum dala og er því komið í hóp verðmætustu fjölmiðlafyrirtækja Bandaríkjanna. Til samanburðar nemur markaðsvirði Fox Corp, eiganda Fox News, og Warner Bros Discovery 24-25 milljörðum dala.

Í umfjöllun Financial Times segir að hækkunin sé afar óvænt fyrir sjónvarpsstöð sem sé rekin í tapi. Newsmax, sem var með tekjur upp á 171 milljón dala, tapaði 72 milljónum dala eða um 9,6 milljörðum króna í fyrra.

Donald Trump hefur verið duglegur að lofsyngja íhaldssama fjölmiðlafyrirtækinu en það fékk meðal annars mikið umtal frá honum á fyrsta kjörtímabili hans.

Newsmax var stofnað árið 1998 sem veffréttamiðill og fór svo í loftið sem sjónvarpsstöð árið 2014. Áhorf á stöðinni jókst töluvert árið 2020 þegar stöðin fékk umtal frá Donald Trump, sem á þeim tíma var að verða sífellt reiðari út í Fox News.

Samkvæmt Bloomberg Billionaires Index er Christopher Ruddy, stofnandi og forstjóri Newsmax, orðinn einn ríkasti maður Bandaríkjanna eftir hækkunina. Sumir sérfræðingar hafa borið gengishækkunina saman við hækkun GameStop fyrir nokkrum árum.