Úrvalsvísitalan lækkaði lítillega í 1,8 milljarða króna viðskiptum á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Mesta veltan var með hlutabréf Marels, eða um 543 milljónir, en gengi félagsins féll um 0,3% og stendur nú í 604 krónum á hlut. Hlutabréf Marels hafa nú fallið um 13,7% á tveimur vikum.
Skel fjárfestingafélag lækkaði mest af félögum aðalmarkaðarins eða um 3,9%, þó aðeins í tólf milljóna veltu. Gengi Skeljar stendur nú í 17,1 krónu og er enn um 2,4% hærra en fyrir mánuði síðan.
Hlutabréfaverð Nova endaði daginn í 4,35 krónum á hlut við lokun Kauphallarinnar eftir 1,4% lækkun í 84 milljóna viðskiptum í dag. Dagslokagengi fjarskiptafélagsins hefur ekki lægra frá skráningu í Kauphöllina þann 21. júní síðastliðinn. Hlutabréfaverð Nova er nú 15% undir genginu í almennu útboði félagsins í síðasta mánuði.
Gengi Símans hækkaði mest af félögum aðalmarkaðarins eða um 0,9% og stendur nú í 11,3 krónum á hlut. Hlutabréfaverð Kviku banka hækkaði um 0,8% í hundrað milljóna viðskiptum stóð í 104 milljónum við lokun markaða í dag. Gengi flugfélagsins Play, sem er skráð á First North-markaðinn, hækkaði um 1,8% í 138 milljóna veltu og stendur í 17,2 krónum.