Hluta­bréfa­verð Ocu­lis leiddi hækkanir á aðal­markaði er gengi líftækni­lyfjafélagsins fór upp um rúm 5% í við­skiptum dagsins. Heildar­velta með bréf Ocu­lis nam 283 milljónum króna og var dagsloka­gengið 2.250 krónur.

Gengi félagsins hækkaði veru­lega í október­mánuði og fór hæst í 2.470 krónur í byrjun nóvember­mánaðar.

Eftir árs­hluta­upp­gjör félagsins í síðasta mánuði tók gengið að dala á ný en hefur síðan tekið við sér síðustu vikur. Sam­kvæmt upp­gjöri Ocu­lis býst félagið við því að sækja um markaðs­leyfi hjá Mat­væla- og lyfja­eftir­liti Bandaríkjanna (FDA) fyrir OCS-01 á fyrsta fjórðungi 2025.

Gengi Play leiddi lækkanir á aðal­markaði er hluta­bréfa­verð flug­félagsins lækkaði um tæp 5% í ör­við­skiptum. Dagsloka­gengi flug­félagsins var 0,97 krónur og hefur ekki verið lægra síðan í lok október.

Play birtifarþegatölur fyrir opnun markaðaí morgun en flug­félagið flutti færri farþega í nóvember­mánuði en í fyrra vegna ákvörðunar flug­félagsins að leigja eina af farþegaþotum sínum til GlobalX í Miami til að aðlaga fram­boðið eftir ár­stíðar­bundnum sveiflum

Sætanýting Play var þó betri milli ára og nam 82,4% í nóvember saman­borið við sætanýtingu upp á 74,5% í nóvember í fyrra. Þrátt fyrir minna fram­boð jókst fjöldi Ís­lendinga sem flugu með Play í nóvember.

Hluta­bréfa­verð Icelandair lækkaði einnig í við­skiptum dagsins er gengi flug­félagsins fór niður um rúm 2%.

Dagsloka­gengi Icelandair var 1,28 krónur en gengi flug­félagsins hefur hækkað um rúm 10% síðastliðinn mánuð.

Úr­vals­vísi­talan OMXI 15 hækkaði um 0,37% í við­skiptum dagsins og var heildar­velta 4,1 milljarður.