Hlutabréfaverð Ölgerðarinnar hefur lækkað um 2,9% í fyrstu viðskiptum dagsins og stendur í 9,28 krónum á hlut þegar fréttin er skrifuð. Gengið er nú 4,3% yfir útboðsgengi fyrir almenna fjárfesta í útboði félagsins sem lauk þann 27. maí. Rétt er þó taka fram að einungis 13 milljóna króna viðskipti hafa verið með bréf Ölgerðarinnar í dag.
Sjá einnig: Sjö þúsund hluthafar hjá Ölgerðinni
Ölgerðin var skráð á markað á miðvikudaginn 8. júní síðastliðin. Gengi félagsins í lok fyrsta viðskiptadagsins á aðalmarkaði Kauphallarinnar var 10,03 krónur á hlut. Hlutabréf Ölgerðarinnar hafa lækkað um 7,7% síðan þá.
Hlutabréf Nova, sem var skráð á markað í gær hafa einnig fallið örlítið í fyrstu viðskiptum dagsins og standa nú í 4,62 krónum á hlut, 9,6% undir útboðsgengi í nýafstöðnu útboði fjarskiptafélagsins.