Gengi flugfélagsins Play hefur lækkað um 2,66% í morgun í 13 milljóna króna viðskiptum.

Gengi félagsins hefur aldrei verið lægra frá því að það var skráð á First North fyrir rúmum tveimur árum, eða þann 9. júlí.

Gengi félagsins er nú 9,15 krónur á hlut.

Útboðsgengið í aðdraganda skráningarinnar á First North var 18 en útboðinu lauk þann 25. júní 2021.

Við skráningu hækkaði gengið mikið, endaði í 24,6 á fyrsta viðskiptadegi en fór hæst í 28,3 í október sama ár.

Gengið hefur sigið nær viðstöðulaust síðasta árið og nemur lækkunin 51,85%.

Hlutabréfaverðið rétti þó nokkuð úr sér í júní og júlí, lækkaði hins vegar í ágúst.

Það tók töluverða dýfu þegar félagið tilkynnti þann 7. september að það gerði ekki ráð fyrir því að hagnast á þessu ári. Í tilkynningunni sagði um þetta:

Ein af lykilforsendum fyrir afkomuspá ársins var stöðugt eldsneytisverð og mun þessi mikla hækkun, ásamt öðrum almennum kostnaðarhækkunum vegna verðbólgu í heiminum, hafa neikvæð áhrif á afkomu félagsins seinni hluta ársins 2023. Því gerum við ekki ráð fyrir að EBIT afkoma ársins 2023 verði jákvæð eins og áður hafði verið spáð en þó er ljóst að um mjög umtalsverðan viðsnúning í rekstri verður að ræða frá fyrra ári og að lausafjárstaða félagsins verði áfram heilbrigð.

Hefur verðið lækkað um 23% frá tilkynningunni.