Úrvalsvísitalan stóð í stað í 2,5 milljarða króna veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Langmesta veltan, eða um 900 milljónir króna, var með hlutabréf Íslandsbanka sem hækkuðu um 1,2% í dag.

Hlutabréfaverð Íslandsbanka hefur hækkað um 8,6% í júlí og stendur nú í 126 krónum á hlut. Gengi bankans hefur ekki verið hærra síðan í lok mars og er nú 18,2% yfir 106,56 króna útboðsgenginu í 90 milljarða króna útboði á eftirstandandi 45% hlut ríkisins í bankanum í maí.

Hlutabréfaverð flugfélaganna Icelandair og Play lækkuðu um 3% í dag. Gengi Icelandair hefur nú lækkað um 16,4% frá birtingu árshlutauppgjörs á fimmtudaginn síðasta og stendur í 1,07 krónum á hlut. Velta með bréf Icelandair nam 166 milljónum króna í dag.

Gengi Play lækkaði um 3,2% í sex viðskiptum sem námu samtals 614 þúsundum króna og stendur nú í 0,60 krónum á hlut.

Hlutabréfaverð Play hefur nú fallið um tæplega 35% frá því að flugfélagið tilkynnti um að fjárfestahópur sem hafði í síðasta mánuði boðað yfirtökutilboð á tilboðsverðinu 1,0 krónu á hlut, hefði fallið frá áformunum. Flugfélagið tilkynnti samhliða um að það hefði tryggt sér áskriftarloforð upp á 2,4 milljarða króna vegna áformaðrar útgáfu breytanlegra skuldabréfa.

Gengi Sýnar hækkaði mest af félögum aðalmarkaðarins eða um 3,3% í 25 milljónar króna veltu. Hlutabréfaverð fjölmiðla- og fjarskiptafélagsins hefur hækkað um 30% undanfarinn mánuð og ekki verið hærra síðan í byrjun janúar.