Úrvalsvísitalan lækkaði um 1,6% í 1,8 milljarða króna viðskiptum á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Icelandair lækkaði mest af félögum aðalmarkaðarins eða um 2,9% í 121 miljónar króna veltu. Gengi flugfélagsins stendur nú í 1,81 krónu.
Á First North-markaðnum lækkaði flugfélagið Play mest eða um 5,5% í 29 milljóna króna veltu. Hlutabréfaverð Play stendur nú í 15,35 krónum og er um þriðjungi lægra en í byrjun árs. Gengi Play hefur aldrei verið lægra frá skráningu og er nú 14,7% undir útboðsgengi fyrir almenna fjárfesta í frumútboði flugfélagsins í júní 2021.
Sjá einnig: Þóra hættir sem fjármálastjóri Play
Eftir lokun markaða á föstudaginn síðasta var tilkynnt um að Þóra Eggertsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálsviðs Play, hefði sagt starfi sínu lausu.
Mesta veltan í Kauphöllinni var með hlutabréf Arion banka sem lækkuðu um 0,8% í 400 milljóna króna viðskiptum. Gengi Arion stendur nú í 156 krónum. Næst mesta veltan var með bréf Eimskips sem lækkuðu um 2,8%.