Úrvalsvísitalan lækkaði um 0,3% í 1,4 milljarða króna veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Mesta veltan, eða um 179 milljónir króna, var með hlutabréf Icelandair sem hækkuðu um 1,8%. Gengi Icelandair stendur nú í 2,03 krónum á hlut.
Hlutabréf flugfélagsins Play, sem er skráð á First North-markaðinn, lækkaði hins vegar um 2,3% í 46 milljóna veltu. Gengi Play hefur nú lækkað um 10% frá birtingu ársuppgjörs eftir lokun markaða á föstudaginn og stendur nú í 12,6 krónum á hlut. Dagslokaverð Play hefur aðeins einu sinni verið jafn lágt en það var dagana 21.-22. nóvember 2022.
Fasteignafélagið Reginn lækkaði mest af félögum Kauphallarinnar í dag eða um 3,7% í 35 milljóna veltu. Eftir lokun Kauphallarinnar í gær var tilkynnt um að Helgi S. Gunnarsson, sem hefur verið forstjóri Regins frá stofnun félagsins árið 2009, hefði óskað eftir því að láta af störfum á næstu mánuðum.