Hlutabréfaverð flugfélagsins Play hefur fallið um nærri 10% frá opnun Kauphallarinnar í morgun og stendur í 0,83 krónum á hlut þegar fréttin er skrifuð, samanborið við 0,92 krónur við lokun markaða í gær.
Hlutabréfaverð Play var síðast lægra 10. júní síðastliðinn, daginn sem fjárfestahópur sem leiddur er af Einari Erni Ólafssyni forstjóra flugfélagsins og Elías Skúla Skúlasyni, varaformanni stjórnar Play, lýsti yfir áformum um að leggja fram yfirtökutilboð í flugfélagið á genginu 1,0 króna á hlut með það fyrir augum að afskrá félagið.
Play tilkynnti í gær að fjárfestahópurinn hefði fallið frá áformunum. Hópurinn sagði í tilkynningu að ákveðnir stórir hluthafar Play hefðu komið fram vilja um að hlutabréf sín í flugfélaginu yrðu áfram skráð á markað.
Play tilkynnti samhliða um að það hefði tryggt sér bindandi skilyrt áskriftarloforð um kaup fjárfesta á breytanlegu skuldabréfi að samanlögðu andvirði 2.425 milljónir króna, eða um 20 milljónir dala. Play sagði stærstu eigendur þess og nýja íslenska fjárfesta hafa tekið þátt í fjármögnuninni.
„Gjalddagi breytanlegu skuldabréfanna er 24 mánuðum eftir útgáfudag. Breytanlegu skuldabréfin munu bera 17,5% fasta vexti, sem að stærstum hluta leggjast við höfuðstól fram að gjalddaga, og verður skuldabréfaeigendum heimilt að umbreyta þeim í hlutabréf á genginu kr. 1,“ segir í tilkynningu Play.
Samhliða viðskiptunum munu eigendur skuldabréfanna eignast kauprétt á 30% hlut í dótturfélagi Play, Fly Play Europe.