Hlutabréfaverð Play sveiflaðist töluvert í örviðskiptum í dag.

Gengi félagsins lækkaði um 10,8% í tíu einstökum viðskiptum sem námu um einni milljón við opnun Kauphallarinnar.

Gengi Play fór niður í 0,58 krónur á hlut en hækkaði síðan um rúm 18% og lokaði í 0,7 krónum. Daglokagengið var 7,7% hærra en gengi gærdagsins.

Play birti árshlutauppgjör eftir lokun markaða en félagið tapaði 3,7 milljörðum króna á fyrsta ársfjórðungi.

Flugfélagið sagði horfur í rekstrinum þó jákvæðar og benti á að lausafjárstaðan væri sterkari en á sama tíma í fyrra.

Hlutabréfaverð Skaga, móðurfélags VÍS, Fossa og Íslenskra verðbréfa, lækkaði um 3,65% í 120 milljón króna viðskiptum og var dagslokagengið 18,5 krónur á hlut.

Skagi tapaði tæplega 1,4 milljörðum króna á fyrsta fjórðungi, sem skýrist að stórum hluta af neikvæðum fjárfestingatekjum vegna lækkunar skráðra hlutabréfa.

Hlutabréfaverð Íslandsbanka lækkaði um rúm 3% í 251 milljón króna veltu og var dagslokagengi bankans 107,5 krónur á hlut. Gengi Íslandsbanka hefur nú lækkað um tæp 9% síðastliðinn mánuð.

Fjármála- og efnahagsráðuneytið auglýsti í dag eftir einum eða fleiri söluaðilum vegna fyrirhugaðs útboðs á eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka hf., en stefnt er að því að selja hluti ríkisins í bankanum í markaðssettu útboði á grundvelli laga sem samþykkt voru á Alþingi í júní í fyrra.

Hlutabréfaverð Icelandair lækkaði um tæp 3% í 47 milljón króna veltu og var dagslokagengi félagsins 1,02 krónur á hlut.

Flugfélagið birti árshlutauppgjör eftir lokun markaða í gær en félagið tapaði 44 milljónum dala, eða sem nemur 6,1 milljarði króna, á fyrsta ársfjórðungi, samanborið við 59,4 milljóna dala tap á sama tímabili í fyrra.

Flugfélagið sagði í tilkynningu að afkomubati hafi verið í öllum rekstrareiningum milli ára og að afkoman sé í takti við væntingar stjórnenda.

Heildartekjur Icelandair jukust um 11% og námu 39,6 milljörðum króna. Þar af voru farþegatekjur flugfélagsins 29,6 milljarðar króna og jukust um 8% frá fyrra ári.

Flugframboð félagsins jókst um 7% í farþegaleiðakerfinu og fjöldi farþega jókst um 9% milli ára.

Úrvalsvísitalan OMXI15 lækkaði um 1,64% í viðskiptum dagsins en úrvalsvísitalan hefur nú lækkað um 15,73% það sem af er ári. Heildarvelta á markaði nam 3,3 milljörðum króna.