Hlutabréf Play héldu áfram að lækka í dag og hefur gengi bréfa félagsins hefur aldrei verið lægra frá skráningu. Hlutabréfaverð Play lækkaði um 2,13% í dag og stendur nú í 13,8 krónum. Það er 23,33% undir 18 króna útboðsgenginu í frumútboði flugfélagsins í júní 2021.

Gengi Play hefur nú fallið um meira en helming frá því að það náði hæstu hæðum í 29,2 krónum í október 2021.

Play tilkynnti í uppgjörstilkynningu fyrir helgi að það myndi ekki ná markmiðum um rekstrarhagnað á seinni hluta ársins. Félagið birti í dag farþegatölur fyrir októbermánuð þar sem kom fram að félagið flutti um 92 þúsund farþega í mánuðinum og var sætanýtingin 81,9%.

Á aðalmarkaði Kauphallarinnar var 2,6 milljarða króna velta. Fjórðungur veltunnar var með hlutabréf Marels sem lækkuðu um 1,8%. Annar fjórðungur veltunnar var með hlutabréf Arion banka sem lækkuðu einnig um 1,85%.

Gengi bréfa Íslandsbanka lækkaði um 1,1% í 180 milljóna veltu og þá lækkaði gengi bréfa Símans um 2,65% í 160 milljón króna viðskiptum.

Aðeins tvö félög hækkuðu í viðskiptum dagins, Brim um 1,23% og Vís um 1,13%.