Hlutabréfaverð flugfélagsins Play hefur lækkað um 50% á First North síðast­liðna sex mánuði. Dagsloka­gengi flug­fé­lagsins var 13,8 krónur þann 8. ágúst en lokaði í 6,85 krónum í dag, eftir 3% lækkun í við­skiptum dagsins.

Mun það vera lægsta gengi í sögu fé­lagsins og í fyrsta sinn sem gengið fer undir 7 krónur frá skráningu.

Ís­lensku flug­fé­lögin Play og Icelandair hafa verið í tölu­verðum vand­ræðum vegna utan­að­komandi að­stæðna síðast­liðna sex mánuði.

Hátt olíu­verð í haust, jarð­hræringar á Reykja­nes­skaga sem og verk­föll flug­um­ferða­stjóra höfðu meðal annars nei­kvæð á­hrif á fé­lögin.

Hluta­bréf í Icelandair hafa lækkað um tæp 36% á sama tíma­bili en gengið stóð í 2 krónum í byrjun ágúst en lokaði í 1,28 krónum í dag.

Icelandair birti árs­upp­gjör á fimmtu­daginn en fé­lagið skilaði hagnaði eftir skatta á árs­grund­velli í fyrsta sinn frá árinu 2017. Hins vegar var af­koma fjórða árs­fjórðungs undir væntingum en EBIT-af­koma var nei­kvæð um 7 milljarða króna fjórðungnum.

Bogi Nils Boga­son, for­stjóri Icelandair, sagði í af­komu­til­kynningu að krefjandi að­stæður á fjórða árs­fjórðungi muni fylgja fé­laginu inn í fyrsta árs­fjórðung og gera megi ráð fyrir að reksturinn á fyrri hluta ársins verði krefjandi.

Árs­upp­gjör Play er væntan­legt eftir lokun markaða á fimmtu­daginn næst­komandi.

Mikil velta með Alvotech og Arion

Heildar­velta í Kaup­höllinni var ekki nema 4,4 milljarðar og var velta með bréf Al­vot­ech og Arion Banka næstum helmingur allra við­skipta.

Hluta­bréfa­verð Al­vot­ech hækkaði um hálft prósent í tæp­lega 800 milljón króna veltu á meðan gengi Arion hækkaði um rúmt eitt prósent í 1,1 milljarðs króna veltu.

Úr­vals­vísi­talan OMXI 15 hækkaði um 0,36%.