Hlutabréfaverð flugfélagsins Play hefur lækkað um 50% á First North síðastliðna sex mánuði. Dagslokagengi flugfélagsins var 13,8 krónur þann 8. ágúst en lokaði í 6,85 krónum í dag, eftir 3% lækkun í viðskiptum dagsins.
Mun það vera lægsta gengi í sögu félagsins og í fyrsta sinn sem gengið fer undir 7 krónur frá skráningu.
Íslensku flugfélögin Play og Icelandair hafa verið í töluverðum vandræðum vegna utanaðkomandi aðstæðna síðastliðna sex mánuði.
Hátt olíuverð í haust, jarðhræringar á Reykjanesskaga sem og verkföll flugumferðastjóra höfðu meðal annars neikvæð áhrif á félögin.
Hlutabréf í Icelandair hafa lækkað um tæp 36% á sama tímabili en gengið stóð í 2 krónum í byrjun ágúst en lokaði í 1,28 krónum í dag.
Icelandair birti ársuppgjör á fimmtudaginn en félagið skilaði hagnaði eftir skatta á ársgrundvelli í fyrsta sinn frá árinu 2017. Hins vegar var afkoma fjórða ársfjórðungs undir væntingum en EBIT-afkoma var neikvæð um 7 milljarða króna fjórðungnum.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, sagði í afkomutilkynningu að krefjandi aðstæður á fjórða ársfjórðungi muni fylgja félaginu inn í fyrsta ársfjórðung og gera megi ráð fyrir að reksturinn á fyrri hluta ársins verði krefjandi.
Ársuppgjör Play er væntanlegt eftir lokun markaða á fimmtudaginn næstkomandi.
Mikil velta með Alvotech og Arion
Heildarvelta í Kauphöllinni var ekki nema 4,4 milljarðar og var velta með bréf Alvotech og Arion Banka næstum helmingur allra viðskipta.
Hlutabréfaverð Alvotech hækkaði um hálft prósent í tæplega 800 milljón króna veltu á meðan gengi Arion hækkaði um rúmt eitt prósent í 1,1 milljarðs króna veltu.
Úrvalsvísitalan OMXI 15 hækkaði um 0,36%.