Hlutabréfaverð flugfélagsins Play hefur lækkað um 12,5% í örviðskiptum í dag.
Gengið stendur í 0,39 krónum þegar þetta er skrifað. Haldist það óbreytt yrði það lægsta dagslokagengi í sögu félagsins.
Úrvalsvísitalan hefur lækkað um 0,69% í viðskiptum dagsins en lækkanir eru fremur hóflegar að Play undanskildu.
Gengi Icelandair hefur lækkað um rúm 2%, Amaroq um 2% og Alvotech um tæp 2%.
Hlutabréf á heimsvísu hafa verið að lækka síðasta sólarhring meðal annars vegna aukinnar spennu í alþjóðaviðskiptum í tengslum við tollaákvörðun Donalds Trumps Bandaríkjaforseta.
Tollar á íslenskar vörur hækka úr 10% í 15%, sem gæti haft áhrif á íslenskan sjávarútveg, lyfjaiðnað og tæknifyrirtæki sem flytja vörur til Bandaríkjanna.