OMXI10 úrvalsvísitalan lækkaði um 2% í 3,8 milljarða króna veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag.

Síminn leiddi lækkanir á markaði, en gengi bréfa félagsins lækkaði um 3,7% í 475 milljón króna viðskiptum. Icelandair og Marel lækkuðu bæði um 3% í viðskiptum dagsins og þá lækkaði Eimskip um 3,5%.

Mesta veltan var með bréf Arion banka, en hlutabréfaverð félagsins lækkaði um 1,2% í 485 milljón króna viðskiptum. Fimm félög hækkuðu á aðalmarkaði. Iceland Seafood hækkaði mest þeirra, um 2% í 70 milljóna viðskiptum.

Hlutabréfaverð líftæknilyfjafyrirtækisins Alvotech lækkaði um 4,9% í 65 milljón króna viðskiptum á First North markaðnum í dag. Gengið stendur nú í 818 krónum á hlut og hefur ekki verið lægra frá skráningu þess í júní síðastliðnum. Hlutabréf félagsins hafa fallið um tæp 40% á þessum tíma.

Þá lækkaði Play um tæp 4,8% í dag og hefur hlutabréfaverð félagsins aldrei verið lægra. Gengi bréfa flugfélagsins stendur nú í 13 krónum, sem er 28% undir 18 króna útboðsgenginu í frumútboði flugfélagsins í júní 2021.