Úrvalsvísitalan féll um 0,6% í 3,7 milljarða króna veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Kauphöllin opnaði græn í morgun en hlutabréf tóku að lækka eftir því sem leið á daginn. Um er að ræða fjórða daginn í röð sem vísitalan fellur en hún hefur lækkað um 3,2% í vikunni.
Eimskip lækkaði mest af félögum aðalmarkaðarins eða um 2,7% í 160 milljóna veltu. Gengi flutningafélagsins hefur fallið um 6,8% á einni viku. Auk Eimskips féllu hlutabréf sjö annarra félaga um meira en 1%.
Fimm félög aðalmarkaðarins hækkuðu í viðskiptum dagsins. Af þeim hækkuðu VÍS og Icelandair mest. Gengi VÍS stendur í 19,6 krónum eftir 1,5% hækkun og gengi Icelandair í 2,0 krónum eftir 1% hækkun.
Hlutabréfaverð Play, sem er skráð á First North-markaðnum, endaði í fyrsta sinn undir 10 krónum á hlut við lokun Kauphallarinnar. Gengi félagsins stendur nú í 9,9 krónum eftir 24,4% lækkun í ár.