Hlutabréfaverð Símans leiddi hækkanir á aðalmarkaði í dag en fjarskiptafyrirtækið birti ársuppgjör eftir lokun markaða í gær.
Gengi Símans hækkaði um 2,5% í tæplega 200 milljón króna veltu og var dagslokagengið 14,25 krónur á hlut.
Síminn hagnaðist um 1.381 milljón króna árið 2024 samanborið við 1.346 milljónir árið 2023 og lagði stjórn Símans til um 500 milljón króna arðgreiðslu í ár.
María Björk Einarsdóttir forstjóri Símans greindi jafnframt frá því að félagið ætli áfram að finna leiðir til að vaxa og þróast til framtíðar samhliða því að standa vörð um grunnrekstur.
Hlutabréfaverð flugfélagsins Play leiddi lækkanir í viðskiptum dagsins er gengi félagsins fór niður um 7,5% í örviðskiptum í dag. Dagslokagengi Play var 0,93 krónur á hlut.
Gengi Alvotech lækkaði einnig í viðskiptum dagsins er hlutabréfaverð líftæknilyfjafyrirtækisins fór niður um rúm 4% í rúmlega 333 milljón króna viðskiptum. Dagslokagengi Alvotech var 1.710 krónur og hefur ekki verið lægra síðan í desember í fyrra.
Úrvalsvísitalan OMXI15 lækkaði um 1,09% og var heildarvelta á markaði 3,7 milljarðar.