Hluta­bréfa­verð Símans leiddi hækkanir á aðal­markaði í dag en fjar­skipta­fyrir­tækið birti árs­upp­gjör eftir lokun markaða í gær.

Gengi Símans hækkaði um 2,5% í tæp­lega 200 milljón króna veltu og var dagsloka­gengið 14,25 krónur á hlut.

Síminn hagnaðist um 1.381 milljón króna árið 2024 saman­borið við 1.346 milljónir árið 2023 og lagði stjórn Símans til um 500 milljón króna arð­greiðslu í ár.

María Björk Einars­dóttir for­stjóri Símans greindi jafn­framt frá því að félagið ætli áfram að finna leiðir til að vaxa og þróast til framtíðar sam­hliða því að standa vörð um grunn­rekstur.

Hluta­bréfa­verð flug­félagsins Play leiddi lækkanir í við­skiptum dagsins er gengi félagsins fór niður um 7,5% í ör­við­skiptum í dag. Dagsloka­gengi Play var 0,93 krónur á hlut.

Gengi Al­vot­ech lækkaði einnig í við­skiptum dagsins er hluta­bréfa­verð líftækni­lyfja­fyrir­tækisins fór niður um rúm 4% í rúm­lega 333 milljón króna við­skiptum. Dagsloka­gengi Al­vot­ech var 1.710 krónur og hefur ekki verið lægra síðan í desember í fyrra.

Úr­vals­vísi­talan OMXI15 lækkaði um 1,09% og var heildar­velta á markaði 3,7 milljarðar.