Hlutabréfaverð Símans hækkaði um tæp 3% í um 211 milljón króna viðskiptum í dag en fjarskiptafélagið birti árshlutauppgjör eftir lokun markaða í gær. Gengi Símans hefur nú hækkað um rúm 8% síðastliðna tuttugu daga.
Síminn skilaði 244 milljóna króna hagnaði á öðrum ársfjórðungi, samanborið við 179 milljóna hagnað á sama tímabili í fyrra.
Tekjur Símans jukust um 9,4% milli ára og námu 6,9 milljörðum. Þar af voru tekjur Billboard, Dengsa og BBI, fyrirtækja á auglýsingamarkaði sem Síminn keypti fyrr á árinu, um 400 milljónir króna. Félögin þrjú voru að fullu inni í samstæðunni á öðrum fjórðungi.
Orri Hauksson, fráfarandi forstjóri Símans, sagði að tekjur og rekstrarafkoma Símans hafi vaxið með ásættanlegum hætti á öðrum fjórðungi en mikil hreyfing var á fjarskiptamarkaði, sérstaklega í upphafi árs.
Hlutabréfaverð Eimskips leiddi lækkanir á markaði en gengi gámaflutningafélagsins hefur nú lækkað um 8% síðastliðna viku. Dagslokagengi Eimskips var 352 krónur eftir um 4% lækkun í 173 milljón króna viðskiptum í dag.
Alcoa Fjarðarál ákvað að stefna Eimskipi og Samskipum vegna meints samráðs þeirra á árunum 2008 til 2013 en í Kauphallartilkynningu Eimskips kemur fram að fjárkrafan sé byggð á frummati Analytica sem hefur hlotið töluverða gagnrýni.
Hagnaður Eimskips dróst töluvert saman á milli ára og nam 8,4 milljónum evra á fyrri helmingi árs sem er lækkun frá 29,5 milljónum á sama tímabili í fyrra. Mun það vera um 71,5% lækkun.
Hlutabréfaverð Skaga lækkaði um 2% í viðskiptum dagsins og var dagslokagengið 14,5 krónur. Gengi Skaga hefur lækkað um 4% síðastliðinn mánuð en von er á árshlutauppgjöri samstæðunnar eftir lokun markaða í dag.